Grét þegar Moyes var rekinn

Marouane Fellaini og David Moyes þegar sá fyrrnefndi samdi við …
Marouane Fellaini og David Moyes þegar sá fyrrnefndi samdi við Man. United. Ljósmynd/Heimasíða Man. Utd

Marouane Fellaini, fyrrverandi leikmaður Manchester United og Everton í ensku úrvalsdeildinni, segist hafa grátið þegar David Moyes, fyrrverandi knattspyrnustjóri hans hjá báðum liðum, var látinn taka pokann sinn hjá United.

Moyes var ráðinn stjóri United sumarið 2013 eftir 11 ár hjá Everton en entist aðeins í átta mánuði hjá Rauðu djöflunum þar sem hann var rekinn vorið 2014, áður en tímabilið 2013/2014 rann sitt skeið.

„Ég var leiður fyrir hans hönd þegar hann var rekinn því ég veit hversu mjög hann vildi ná árangri. Ef þú spyrðir alla leikmenn Everton hvað þeim þótti um Moyes myndu þeir allir segja þér hversu indæl manneskja hann er,“ sagði Fellaini í samtali við The Athletic.

Moyes keypti Fellaini bæði til Everton og svo til United. „Hann fékk mig til Englands og keypti mig svo til Manchester United, eins stærsta félags heims. Ég mun aldrei geta sagt neitt slæmt um hann.

Ef ég er fyllilega hreinskilinn þá grét ég þegar ég komst að því að Moyes væri búinn að missa starfið hjá Manchester United. Ég hélt að hann myndi vera lengi þar.

Þetta var slæmur, dapurlegur dagur. Ég fór á skrifstofuna hans til að kveðja hann, áður en hann kvaddi alla hina. Ég sagði við hann: „Gangi þér vel.“ En þetta var erfiður tími fyrir mig,“ bætti Fellaini við.

Hann sagðist vera hrifinn af því sem Moyes er að gera hjá West Ham United um þessar mundir, sem sýni að skoski stjórinn verðlauni þolinmæði stjórnarmanna knattspyrnufélaga.

„Ég hef sagt þetta allt frá upphafi; ef þú gefur Moyes tíma þá býr hann til gott lið. Ég er búinn að horfa á West Ham nokkrum sinnum á tímabilinu. Þeir eru orðnir að liði sem er erfitt að vinna,“ sagði Fellaini einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert