Vil spila góðan og aðlaðandi fótbolta

Antonio Conte er mættur aftur til Englands.
Antonio Conte er mættur aftur til Englands. AFP

Antonio Conte, nýráðinn knattspyrnustjóri enska félagsins Tottenham Hotspur, segist stefna að því að spila fallegan fótbolta og að hann verði að vinna sér inn traust stuðningsmanna félagsins.

„Þjálfunarheimspeki mín er mjög einföld; að spila góðan og aðlaðandi fótbolta fyrir aðdáendur okkar. Að búa yfir stöðugu liði sem fer ekki upp og niður.

Ég tel að aðdáendurnir eigi skilið samkeppnishæft lið sem býr yfir vilja til þess að berjast. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að eiga stuðning þeirra skilinn,“ sagði Conte í samtali við Spurs TV.

Hann sagðist ekki hafa verið reiðubúinn að taka við stjórnartaumunum hjá Tottenham í sumar þegar stjórnarmenn félagsins fóru þess á leit við hann.

Eftir að hafa fengið góða hvíld í faðmi fjölskyldunnar í kjölfar erfiðs tímabils og viðskilnaðar við Ítalíumeistara Internazionale frá Mílanó undanfarna mánuði sé Conte nú klár í slaginn til þess að takast á við næstu áskorun sína.

„Svona aðstæður gefa þér byr undir báða vængi og auka löngunina til þess að vinna að því að gera eitthvað mikilvægt fyrir aðdáendur þessa félags.

Þetta er frábært tækifæri, það er heiður að taka við sem knattspyrnustjóri hér,“ bætti hann við.

Conte hefur áður þjálfað á Englandi þar sem hann gerði nágrannana í Chelsea að Englandsmeisturum árið 2017 og bikarmeisturum ári síðar.

Sem áður segir stýrði hann svo Inter til sigurs í ítölsku A-deildinni á síðasta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert