Manchester United tekur á móti Manchester City í stórslag helgarinnar í hádeginu á laugardag. Þeir Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans á Símanum Sport, og Bjarni Þór Viðarsson ræddu stuttlega um leikinn.
Bjarni Þór segir missinn af Raphael Varane auðsýnilega mikinn en í líklegu byrjunarliði United á morgun telur hann þrátt fyrir fjarveru hans líklegt að Ole Gunnar Solskjær haldi sig við 3-5-2 leikkerfið sem gafst svo vel gegn Tottenham Hotspur um síðustu helgi.
Tómas Þór spurði Bjarna Þór hvort að raddirnar um að Solskjær ætti að koma sér aftur heim til Molde ef illa fer í leiknum á morgun myndu verða háværar á ný.
„Já ég held að það hætti aldrei. Ole Gunnar er auðvitað undir gífurlegri pressu, búinn að kaupa mikið. Hann hefur keypt fyrir virkilega háar upphæðir með þessa leikmenn þarna frammi. Þú kaupir þessa leikmenn og vilt að þeir standi sig.
Þeir eru að gera það og hann mun væntanlega vonast eftir því gegn City. Hann verður að sækja úrslit á heimavelli eftir þetta tap gegn Liverpool í þarsíðustu umferð,“ sagði Bjarni Þór.
Umræður Tómasar Þórs og Bjarna Þórs um Manchester-slaginn, sem verður sýndur í beinni útsendingu á Símanum Sport klukkan 12:30 á morgun, má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan. Upphitun fyrir leikinn hefst hálftíma fyrr.