Brjálæðislegur en mikilvægur

Antonio Conte er mættur til leiks hjá Tottenham.
Antonio Conte er mættur til leiks hjá Tottenham. AFP

Antonio Conte, nýráðinn knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, segir að fyrsti leikur liðsins undir sinni stjórn hafi verið „brjálæðislegur en mikilvægur.“

Tottenham vann Vitesse frá Hollandi 3:2 í Evrópudeildinni í gærkvöld þar sem liðið komst í 3:0 og öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik en þrír leikmenn voru reknir af velli.

„Þetta var brjálæðislegur leikur því við vorum komnir í 3:0, sköpuðum okkur fullt af færum til að skora fleiri mörk, en í stað þess fengum við á okkur tvö mörk á tíu mínútum og misstum dálítið sjálfstraustið," sagði Conte á fréttamannafundi í dag.

„En þetta var leikur sem við áttum að vinna og við gerðum það. Þegar við vorum orðnir manni færri í seinni hálfleiknum reyndu þeir að pressa okkur og þá ákvað ég að gera þrjár breytingar á liðinu. Þegar upp var staðið var þetta sanngjarn sigur því við sköpuðum okkur fleiri færi en Vitesse," sagði Conte.

„Þeir sem þekkja mig vel vita að ég er ekki ánægður þegar leikir fara svona úr böndunum. Ég kalla þá brjálæðislega leiki. Ég vil fá stöðugleika í mitt lið og þegar möguleiki er fyrir hendi að gera út af við andstæðinginn þá verður þú að gera það. Mitt lið sýndi mér vissulega ákveðni og seiglu, og það þurfti á því að halda að vinna svona leik," sagði Conte.

Ítalinn sem tók við Tottenham á þriðjudaginn stýrir liðinu í fyrsta sinn í deildarleik á sunnudag þegar Lundúnaliði sækir heim Everton á Goodison Park.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert