Fimmta tap Villa í röð

Adam Armstrong fagnar glæsilegu sigurmarki sínu í kvöld.
Adam Armstrong fagnar glæsilegu sigurmarki sínu í kvöld. AFP

Southampton vann nauman sigur á heimavelli gegn Aston Villa, 1:0, þegar liðin mættust í fyrsta leik 11. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í kvöld.

Adam Armstrong kom heimamönnum í Southampton í forystu strax á þriðju mínútu leiksins.

Fyrirliðinn James Ward-Prowse átti þá langa sendingu fram sem Matty Cash, hægri bakvörður Aston Villa, misreiknaði og fékk boltann í sig áður en hann barst til Armstrong sem náði stórkostlegu viðstöðulausu skoti fyrir utan vítateig sem fór rakleitt upp í nærhornið.

Skömmu síðar tók Ward-Prowse hornspyrnu og þar datt boltinn fyrir fætur Stuart Armstrong sem setti boltann á einhvern óskiljanlegan hátt yfir markið af örstuttu færi.

Bæði lið fengu prýðis færi það sem eftir lifði leiks en glæsimark Armstrongs eldsnemma leiks reyndist sigurmark leiksins.

Southampton hrósaði því sigri í þriðja deildarleiknum í röð, en allir þessir sigurleikir hafa endað 1:0, Dýrlingunum í vil.

Aston Villa er á meðan í tómu tjóni og hefur nú tapað fimm deildarleikjum í röð.

Southampton klífur áfram upp töfluna og er nú í 12. sæti með 14 stig.

Villa, sem hóf tímabilið af krafti, er hins vegar í 15. sæti með 10 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert