Risaslagur Manchester-liðanna um helgina

Ellefta umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla fer af stað í kvöld en það sem hæst ber í umferðinni er stórslagur Manchester United og Manchester City á Old Trafford í hádeginu á morgun.

Gengi Man. Utd hefur verið upp og ofan að undanförnu og þrátt fyrir að hafa gengið aðeins betur í deildinni á tímabilinu tapaði Man. City síðasta deildarleik sínum og getur Man. Utd jafnað nágranna sína að stigum með sigri.

Fjöldi athyglisverðra leikja er á dagskrá um helgina. Þar má til að mynda nefna fyrsta deildarleik Antonio Conte við stjórnvölinn hjá Tottenham Hotspur. Heimsækir liðið Everton sem hefur verið í brasi að undanförnu.

Þá lýkur umferðinni með afar athyglisverðum slag West Ham United á sunnudaginn, sem hefur farið á kostum á tímabilinu, og Liverpool, sem er enn eina taplausa liðið í deildinni til þessa.

Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans á Símanum Sport, fer í myndskeiðinu hér að ofan yfir leiki helgarinnar, en þeir eru sem fyrr allir, tíu talsins, sýndir í beinni útsendingu á stöðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert