Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri Manchester United sagði á fréttamannafundi í dag að hann gæti ekki skilið þá sem segðu að það hefði verið neikvætt fyrir félagið að fá Cristiano Ronaldo aftur í sínar raðir.
„Hann er einn af bestu knattspyrnumönnum sögunnar og hefur haft gríðarleg áhrif á liðið. Hann skorar mörk og hann vinnur fyrir liðið. Hann er fagmaður í fremstu röð. Hvernig fólk getur sagt að það sé neikvætt fæ ég ekki skilið. Við erum afar ánægð með að hann hafi farið eins vel af stað með okkur og raun ber vitni. Hann er fagmaður af bestu gerð," sagði Solskjær.
Manchester United tekur á móti Manchester City í stórleik helgarinnar á Old Trafford á morgun klukkan 12.30.