Þeir Curtis Jones og Joe Gomez, leikmenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool, voru hvorugir í leikmannahópi liðsis þegar það vann sterkan 2:0 sigur á Atlético Madríd í Meistaradeild Evrópu á miðvikudagskvöld.
Jones varð fyrir því óláni að fá fingur í annað auga sitt á æfingu daginn fyrir þann leik. Þar sem augað hans var klórað við þetta verður hann ekki með þegar Liverpool heimsækir West Ham United í 11. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn kemur.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, greindi frá þessu á fréttamannafundi í dag. Þar sagði hann að hann búist við Jones til baka eftir landsleikjahlé sem fer í hönd skömmu eftir helgi.
Gomez meiddist þá á kálfa á æfingu og kemur sömuleiðis ekki til baka fyrr en eftir landsleikjahléið, þó líklegra sé að hann gæti misst af 1-2 leikjum til viðbótar eftir það, ólíkt Jones.
Naby Keita og James Milner eru þá á meiðslalistanum ásamt Roberto Firmino og er eitthvað lengra í þá alla og lengst í þann síðastnefnda eftir að Klopp staðfesti að hann væri að glíma við alvarlega meiðsli aftan á læri.