Chelsea missteig sig – fyrsti sigur Norwich

Leikmenn Burnley fagna jöfnunarmarki Matej Vydra (27) í dag.
Leikmenn Burnley fagna jöfnunarmarki Matej Vydra (27) í dag. AFP

Chelsea hljóp á sig í toppbaráttunni þegar liðið gerði 1:1 jafntefli gegn Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag. Þá unnu nýliðar Norwich City sinn fyrsta sigur á tímabilinu.

Chelsea tók forystuna gegn Burnley á 33. mínútu þegar Kai Havertz skoraði með skalla eftir góða fyrirgjöf Reece James.

Á 79. mínútu jafnaði Matej Vydra metin fyrir Burnley, en hann hafði komið inn á sem varamaður fyrir Jóhann Berg níu mínútum fyrr.

Chelsea er nú með þriggja stiga forskot á Manchester City á toppnum, þó Liverpool geti minnkað það aftur niður í eitt stig með sigri í snúnum útileik gegn West Ham United á morgun.

Norwich heimsótti Brentford í nýliðaslag. Matthias Normann kom gestunum yfir strax á sjöttu mínútu og Teemu Pukki tvöfaldaði forystuna með marki úr vítaspyrnu eftir tæplega hálftíma leik.

Í síðari hálfleik, eftir klukkutíma leik, minnkaði Rico Henry muninn fyrir Brentford en lengra komst liðið ekki og 2:1 sigur Norwich því niðurstaðan.

Norwich er því loks komið á blað í deildinni og er Newcastle United nú eina lið hennar sem hefur ekki enn unnið deildarleik á tímabilinu.

Crystal Palace fylgdi þá eftir fræknum útisigri gegn Man. City um síðustu helgi með því að leggja Wolverhampton Wanderers að velli, 2:0, á heimavelli í dag.

Bæði mörkin komu í síðari hálfleik og voru sömu markaskorarar að verki og gegn City síðast, þeir Wilfried Zaha og Conor Gallagher.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert