Manchester City vann þægilegan 2:0 útisigur á nágrönnum sínum í Manchester United í stórleik 11. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Old Trafford í dag.
Gestirnir í City komust yfir strax á sjöundu mínútu. Joao Cancelo gaf þá fyrir af vinstri kantinum, Eric Bailly stökk á boltann og tæklaði hann á lofti í eigið net, óverjandi fyrir David de Gea í marki United.
Leikurinn róaðist nokkuð eftir markið en í kjölfar þess að Cristiano Ronaldo og Mason Greenwood komust báðir nálægt því að jafna metin fyrir United í næstu sókn hóf City að þjarma að heimamönnum.
Liðið fékk fjölda færa til þess að tvöfalda forystuna en de Gea varði nokkrum sinnum frábærlega.
City virtist ætla að fara með eins marks forystu til leikhlés en undir lok fyrri hálfleiks átti Cancelo lúmska fyrirgjöf inn á vítateig. Luke Shaw ætlaði að láta boltann fara en Bernardo Silva lúrði fyrir aftan hann, náði að renna sér í boltann áður en hann fór út af og tæklaði hann úr þröngu færi í de Gea, sem varði skotið klaufalega í nærhornið.
Staðan því 2:0 í hálfleik, Englandsmeisturum City í vil.
Síðari hálfleikurinn var ansi tíðindalítill lengst framan af.
City hélt boltanum vel og mátti vel við una tveimur mörkum yfir á meðan United gerði lítið við boltann þegar liðið var með hann og sköpuðu sér ekki eitt einasta færi í síðari hálfleiknum.
City fékk á meðan nokkur prýðis færi, það langsamlega besta á 81. mínútu þegar Phil Foden slapp í gegn og skaut í stöngina.
Á 88. mínútu vildi Gabriel Jesus fá vítaspyrnu þegar varamaðurinn Alex Telles sparkaði hann niður í vítateig sínum. Michael Oliver dómari dæmdi hins vegar hornspyrnu þó Telles hafi hvergi snert boltann.
Fleiri urðu mörkin því ekki og góður tveggja marka sigur City í Manchester-slagnum staðreynd.
City fer með sigrinum upp í annað sæti deildarinnar, að minnsta kosti að sinni, á meðan United er áfram í fimmta sæti en nokkur lið geta þó komist upp fyrir Rauðu djöflana með góðum úrslitum í dag og á morgun.