Manchester United tapaði fyrir grönnum sínum í Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær. Bruno Fernandes, miðjumaður United var til viðtals hjá sjónvarpsstöð félagsins og segir hann að lið sitt geri andstæðingum sínum of auðvelt fyrir og það sé eitthvað sem þeir þurfi að laga.
„Augljóslega eru allir ósáttir við bæði úrslitin og frammistöðuna. Við vitum að við getum gert miklu betur og þetta er ekki boðlegt fyrir leikmenn sem spila fyrir þetta stóra félag. Við þurfum að horfa á sjálfa okkur í spegli.“
„Við þurfum að biðja áhorfendur afsökunar því þetta var alls ekki nægilega gott hjá okkur. Þeir sköpuðu frábæra stemningu á vellinum, studdu okkur allt til enda. Þeir reyndu að gefa okkur orku en það dugði ekki til.“
David De Gea, markmaður United átti flottan leik en það sama er ekki hægt að segja um varnarmenn liðsins.
„Vandamálið er að við fáum á okkur of auðveld mörk. Ef það væri ekki fyrir David hefðu úrslitin orðið mun verri. Við þurfum að hjálpa honum betur. Það þýðir ekki að hann verji átta eða níu skot í leik en fái samt á sig mörk.“
„City var miklu betra en við. Þeir halda boltanum vel og láta okkur sjá um hlaupin. Það er erfitt að spila gegn þeim, þeir eru góðir og við vissum það.“