West Ham er komið upp í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eftir 3:2-heimasigur á Liverpool í fjörugum leik á London-vellinum í kvöld.
West Ham byrjaði með látum því strax á 4. mínútu skoraði Alisson í marki Liverpool sjálfsmark. Brasilíski markvörðurinn kýldi þá boltann í eigið mark eftir hornspyrnu. Liverpool-menn vildu aukaspyrnu en Craig Pawson dæmdi markið gott og gilt.
Liverpool svaraði vel og Trent Alexander-Arnold jafnaði með glæsilegri aukaspyrnu á 41. mínútu og var staðan í hálfleik 1:1.
West Ham komst aftur yfir á 67. mínútu er Pablo Fornals slapp einn í gegn eftir sendingu frá Jarred Bowen og skoraði framhjá Alisson. Bowen var aftur á ferðinni á 74. mínútu er hann sendi á Kurt Zouma úr hornspyrnu og miðvörðurinn skallaði í netið af stuttu færi.
Varamaðurinn Divock Origi minnkaði muninn fyrir Liverpool á 83. mínútu en liðinu tókst illa að skapa færi á lokamínútunum og West Ham fagnaði góðum sigri.
West Ham er með 23 stig, þremur stigum á eftir toppliði Chelsea, og í þriðja sæti. Liverpool er í fjórða sæti með einu stigi minna.