Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Leicester City í ensku úrvalsdeildinni, er á óskalista forráðamanna enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United um að taka við liðinu af Ole Gunnar Solskjær.
Það er Manchester Evening News sem greinir frá þessu en ásamt Rodgers eru þeir Zinedine Zidane og Erik ten Hag, stjóri Ajax, einnig á óskalistanum.
Solskjær þykir afar valtur í sessi eftir dapurt gengi United í undanförnum leikjum en liðið hefur unnið einn leik af sex síðustu deildarleikjum sínum og tapað fjórum þeirra.
Antonio Conte var sterklega orðaður við stjórastöðuna hjá félaginu eftir að United tapaði 0:5-gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford á dögunum en Conte var ráðinn stjóri Tottenham í síðustu viku.
Spænski miðillinn AS greinir frá því að Zidane muni ekki taka við United fyrr en í fyrsta lagi eftir tímabilið og það sama sé upp á teningnum hjá Rodgers sem sé ekki tilbúinn að yfirgefa Leicester á miðju tímabili.