Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, var heitt í hamsi eftir 2:3-tap liðsins gegn West Ham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í London í gær.
Þetta var fyrsta tap Liverpool á tímabilinu en liðið er í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 22 stig eftir ellefu umferðir, fjórum stigum minna en topplið Chelsea.
Klopp gagnrýndi dómara leiksins, Craig Pawson, harðlega í viðtali við Sky Sports eftir leikinn en þýski stjórinn var ósáttur með það að fyrsta mark West Ham í leiknum skildi fá að standa.
„Þegar að þú nýtir ekki færin þín þá er það oft þannig að það eru ákvarðanir dómarans sem ráða úrslitum,“ sagði Klopp.
Þá átti Aaron Cresswell, bakvörður West Ham, mjög ljóta tæklingu á Jordan Henderson í leiknum sem mörgum fannst verðskulda rautt spjald en Klopp var spurður út í tæklinguna af fjölmiðlamanni BBC.
„Guð minn góður, ég er ekki hvolpurinn þinn!“ svaraði Klopp.
„Vonandi ertu fær um að mynda þér eigin skoðanir um þetta atvik,“ bætti Þjóðverjinn við.