Emile Smith Rowe, leikmaður Arsenal, hefur verið kallaður inn í enska landsliðshópinn í knattspyrnu í fyrsta skipti fyrir leiki Englands gegn Albaníu og San Marínó í undankeppni heimsmeistaramótsins.
Marcus Rashford frá Manchester United og James Word-Prowse frá Southampton hafa dregið sig út úr hópnum og óvissa er með Mason Mount og Luke Shaw.
Rashford er ekki kominn á fullt skrið með United og hefur ekki leikið heilan leik með félaginu síðan í maí. Shaw fékk höfuðhögg á laugardaginn og á eftir að fá niðurstöðu vegna þess og Mount þarf að fara í tannaðgerð áður en hann kemur til móts við enska landsliðshópinn.
Smith Rowe er 21 árs gamall og hefur skorað fjögur mörk fyrir Arsenal í fyrstu ellefu umferðum úrvalsdeildarinnar, og eitt mark í deildabikarnum að auki. Hann hefur verið í röðum félagsins frá 10 ára aldri og leikið með öllum aldursflokkum yngri landsliða Englands, síðast fjóra leiki með 21-árs landsliðinu á þessu ári.
Smith Rowe er frá Croydon í suðurkanti London en fjölskyldan flutti þaðan í hverfi Arsenal í Norður-London þegar hann hóf að æfa tíu ára gamall með akademíu félagsins.
Hann er ekki eini leikmaður Arsenal sem fær nú tækifæri með landsliðinu eftir góða frammistöðu í haust því miðvörðurinn Gabriel hefur verið valinn í landsliðshóp Brasilíu í fyrsta skipti, fyrir leiki gegn Kólumbíu og Argentínu í undankeppni HM.