Óvissa með áfrýjun Derby

Wayne Rooney lauk ferlinum sem leikmaður Derby og er nú …
Wayne Rooney lauk ferlinum sem leikmaður Derby og er nú knattspyrnustjóri félagsins. AFP

Áfrýjun enska knattspyrnufélagsins Derby County vegna tólf stiga sem dregin voru af liðinu í B-deildinni hefur verið frestað. 

Félagið átti að reka mál sitt fyrir óháðum dómstóli í vikunni en nú hefur það verið sett í biðstöðu að sinni.

Stigin voru dregin af Derby eftir að félagið fór í greiðslustöðvun 22. september en slíkt þýða jafnan tólf stiga frádrátt samkvæmt reglum ensku deildakeppninnar.

Forráðamenn Derby áfrýjuðu hinsvegar á þeim forsendum að félagið hefði verið knúið í greiðslustöðvun vegna fjárhagsörðugleika af völdum útbreiðslu kórónuveirunnar.

Þá eru þeir ennfremur að verjast fleiri mögulegum refsingum vegna fjármálaóreiðu hjá félaginu á undanförnum árum. Derby hefur undanfarin tvö ár leitað að nýjum eigendum en Mel Morris eigandi félagsins hefur reynt að selja það, án árangurs, undanfarnin misseri. 

Morris lagði mikið undir til að koma Derby í úrvalsdeildina á árunum 2015 til 2020 þar sem félagið komst þrisvar í umspil en féll tvisvar út í undanúrslitum og tapaði síðan úrslitaleik um úrvalsdeildarsæti gegn Aston Villa vorið 2019. Hann viðurkenndi í sumar að hafa farið fram úr sér og bað félagið og stuðningsfólk þess afsökunar.

Tveimur sölum á félaginu til erlendra aðila hefur verið hafnað af stjórn deildakeppninnar á þessu ári. Fyrst var það hlutafélag í eigu kaupsýslumanna í Mið-Austurlöndum sem hugðist kaupa Derby og síðan spænski kaupsýslumaðurinn Erik Alonso. Hvorugur aðilinn stóðst skoðun deildakeppninnar. 

Derby slapp á ævintýralegan hátt við fall úr B-deildinni síðasta vor. Eftir að stigin tólf voru dregin af liðinu í september féll það niður á botn deildarinnar og situr þar ennþá með aðeins 6 stig, níu stigum frá því að komast úr fallsæti. Derby væri í 20. sæti, þremur stigum ofan við fallsvæðið, ef það fengi tólf stigin aftur. Í sumar var félaginu bannað að kaupa leikmenn og mátti aðeins fá til sín leikmenn með lausa samninga fyrir þetta tímabil.

Wayne Rooney, knattspyrnustjóri Derby, hefur fyrir vikið leitað til leikmanna eins og Phil Jagielka, fyrrverandi miðvarðar Everton og enska landsliðsins, og Ravel Morrison, sem þótti gríðarlegt efni á sínum tíma en hefur verið stimplaður sem vandræðagemsi um árabil. Liðið hefur aðeins tapað fimm sinnum í fyrstu sautján umferðum deildarinnar en aðallega gert jafntefli og einungis unnið þrjá leiki.

Derby hefur  tvisvar orðið enskur meistari, árin 1972 og 1975, og komst í undanúrslit í Evrópukeppni meistaraliða árið 1973 en tapaði þar fyrir Juventus. Félagið hefur ekki leikið í úrvalsdeildinni frá árinu 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert