Steven Gerrard er sterklega orðaður við knattspyrnustjórastöðuna hjá enska knattspyrnufélaginu Aston Villa en félagið rak Dean Smith úr starfi í gær.
Smith hafði stýrt liðinu frá árinu 2018 þegar það lék í ensku B-deildinni en gengi liðsins undanfarnar vikur hefur verið afleitt.
Liðið er sem stendur í sextánda sæti deildarinnar með 10 stig eftir fyrstu ellefu umferðirnar en Villa hefur tapað síðustu fimm deildarleikjum sínum í röð.
Gerrard hefur stýrt Rangers í Skotlandi frá árinu 2018 en hann gerði liðið að Skotlandsmeisturum í fyrsta sinn í tíu ár á síðustu leiktíð.
Ásamt Gerrard hefur Ralph Hasenhüttl einnig verið orðaður við starfið en hann stýrir í dag liði Southampton.