United ætlar ekki að reka Solskjær

Framtíð Ole Gunnars Solskjærs er mikið í umræðunni þessa dagana.
Framtíð Ole Gunnars Solskjærs er mikið í umræðunni þessa dagana. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United er ekki að hugsa um að reka Ole Gunnar Solskjær úr starfi. Það er The Athletic sem greinir frá þessu.

United tapaði 0:2-fyrir nágrönnum sínum í Manchester City í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á Old Trafford í Manchester um helgina.

United sá aldrei til sólar í leiknum og átti fleiri skot á eigið mark en mark City en framtíð Solskjærs hefur verið mikið í umræðunni á Englandi eftir slæm úrslit í undanförnum leikjum.

„Það er ekkert sem bendir til þess að Solskjær verði rekinn frá Manhcester United á næstu dögum,“ segir í umfjöllun The Athletic.

„Solskjær verður því að öllum líkindum við stjórnvölin í næsta leik gegn Watford. Stjórnin stendur við bakið á honum eins og sakir standa en óvíst er hversu lengi það endist,“ segir ennfremur í umfjöllun The Athletic.

Manchester United er með 17 stig í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, níu stigum minna en topplið Chelsea, en liðið hefur unnið einn af síðustu sex deildarleikjum sínum og tapað fjórum þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert