Áfall fyrir Leicester

Youri Tielemans er lykilmaður í liði Leicester.
Youri Tielemans er lykilmaður í liði Leicester. AFP

Youri Tielemans, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Leicester, verður frá næstu vikurnar vegna meiðsla. Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni.

Tielemans meiddist á kálfa í leik Leicester og Leeds í ensku úrvalsdeildinni um nýliðna helgi og þurfti af þeim sökum að draga sig úr landsliðshóp Belga sem mætir Eistlandi og Wales í undankeppni HM í nóvember.

Miðjumaðurinn verður að öllum líkindum frá í að minnsta kosti þrjár vikur sem þýðir að hann mun líklegast missa af leiknum gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni 20. nóvember og leiknum gegn Legia Varsjá í Evrópudeildinni, hinn 25. nóvember.

Tielemans hefur byrjað alla ellefu leiki Leicester í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar sem hann hefur skorað þrjú mörk og lagt upp önnur tvö.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert