Angelo Ogbonna, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins West Ham, gæti misst af restinni af tímabilinu vegna meiðsla. Það er Sky Sports sem greinir frá þessu.
Ogbonna, sem er 33 ára gamall, meiddist á hné í leik West Ham og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn í London en leiknum lauk með 3:2-sigri West Ham.
Leikmaðurinn er með sködduð liðbönd í hné og gæti þurft að gangast undir aðgerð vegna meiðslanna.
West Ham hefur ekki sett neinn tímaramma á endurkomu Ogbonna en það gæti vel farið svo að hann spili ekki meira á leiktíðinni að því er fram kemur í frétt Sky Sports um málið.
West Ham hefur byrjað tímabilið af miklum krafti og er sem stendur í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 23 stig, þremur stigum minna ne topplið Chelsea.