Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Aston Villa eru á leið í viðræður við Steven Gerrard, stjóra Rangers í Skotlandi. Það er BBC sem greinir frá þessu.
Aston Villa rak Dean Smith úr stjórastólnum á dögunum og er Gerrard efstur á óskalista félagsins um að taka við liðinu.
Gerrard, sem er 41 árs gamall, hefur stýrt Rangers frá árinu 2018 og gerði liðið að meisturum á síðustu leiktíð en þetta var fyrsti meistaratitill félagsins í ellefu ár.
Gerrard er samningsbundinn Rangers til sumarsins 2024 og því þarf Aston Villa leyfi frá skoska félaginu til þess að ræða við Gerrard.
Aston Villa er með 10 stig í sextánda sæti deildarinnar en Roberto Martínez og Ralph Hasenhüttl hafa einnig verið orðaðir við starfið hjá Villa.