Hvetur Solskjær til að láta af störfum

Framtíð Ole Gunnars Solskjærs er mikið í umræðunni þessa dagana.
Framtíð Ole Gunnars Solskjærs er mikið í umræðunni þessa dagana. AFP

Rio Ferdinand, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, telur að Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, sé kominn á endastöð með liðið.

Framtíð Solskjærs hefur verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur en gengi United í undanförnum leikjum hefur verið afar dapurt.

United hefur aðeins unnið einn af síðustu sex deildarleikjum sínum og tapað fjórum þeirra en liðið var yfirspilað á heimavelli sínum Old Trafford gegn bæði Liverpool og Manchester City.

„Þegar ég horfi á liðið spila þá er erfitt að átta sig á leikplaninu eða hvað það er nákvæmlega sem liðið er að reyna gera inni á vellinum,“ sagði Ferdinand í samtali við Manchester Evening News.

„Eftir hvern einasta leik er maður ringlaður yfir spilamennskunni. Ég vonaðist alltaf til þess að Solskjær væri rétti maðurinn til þess að koma liðinu aftur í fremstu röð en ég hafði líka mínar efasemdir, innst inni.

Persónulega held ég að þetta sé góður tími fyrir hann til þess að láta staðar numið og segja af sér. Ég er bara ekki sannfærður um að hann sé rétti maðurinn til að snúa þessu gengi við,“ bætti Ferdinand við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert