Búist er við því að Paul Pogba, miðjumaður enska félagsins Manchester United og franska landsliðsins í knattspyrnu karla, verði frá vegna meiðsla á læri næstu sex til átta vikurnar.
Pogba meiddist á æfingu með franska landsliðinu í gær og upphaflegt mat læknateymis liðsins gerir ráð fyrir þetta langri fjarveru.
Verði hann frá allar átta vikurnar spilar hann ekki aftur fyrr en í upphafi næsta árs og gæti á þessum tíma misst af tveimur leikjum í Meistaradeild Evrópu og allt að tíu leikjum í ensku úrvalsdeildinni.
Samningur Pogba við United rennur út næsta sumar og því getur hann hafið viðræður við önnur félög í upphafi árs 2022 verði hann ekki búinn að skrifa undir nýjan samning fyrir þann tíma.