Solskjær farinn til Noregs

Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, flaug í gær til heimalands síns Noregs. Það er Manchester Evening News sem greinir frá þessu.

Norski stjórinn mun dvelja í Noregi út vikuna ásamt fjölskyldu sinni en hann gaf öllum starfsmönnum og leikmönnum, sem ekki voru valdir í landsliðsverkefni í komandi landsleikjaglugga, frí frá störfum.

Ákvörðun Solskjærs á að hafa komið mörgum innan félagsins á óvart en hann er undir mikilli pressu að snúa slöku gengi liðsins við.

Framtíð norska stjórans hefur verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur en United hefur unnið einn deildarleik af síðustu sex, og tapað fjórum þeirra.

Þá bárust fréttir af því í gær að stærstu stjörnur liðsins væru orðnar langþreyttar á stjóranum og að það stefni í uppreisn í búningsklefa félagsins.

Solskjær, sem er 48 ára gamall, tók við liði United af José Mourinho í desember 2018 og er á sínu þriðja tímabili með liðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert