John Terry, fyrrverandi varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Chelsea, var nálægt því að ganga til liðs við Liverpool sumarið 2003, skömmu áður en rússneski milljarðamæringurinn Roman Abramovich keypti félagið.
Þetta segir Phil Thompson, aðstoðarþjálfari Liverpool frá 1998 til 2004 þegar Gérard Houllier heitinn var knattspyrnustjóri, í samtali við From the Horse‘s Mouth hlaðvarpið.
„Í lokaleik 2002/2003 tímabilsins, þegar Chelsea og Liverpool voru að berjast um síðasta Meistaradeildarsætið. Þetta var rétt áður en Roman Abramovich kom til skjalanna. Við höfðum heyrt af því að Chelsea væri í erfiðri stöðu og að þeir myndu ekki bjóða Frank Lampard eða John Terry nýjan samning.
Eftir leikinn, þegar Chelsea var að þakka áhorfendum fyrir stuðninginn á tímabilinu, sagði Gérard Houllier að Terry væri alvöru spilari. Ég samsinnti því og bætti við að ég teldi að þeir hefðu ekki boðið honum nýjan samning,“ sagði Thompson.
Hann greindi svo frá því að Terry hafi verið opinn fyrir því að ganga til liðs við Liverpool.
„Houllier gekk til Terry, tók í höndina á honum og spurði: „Hvernig litist þér á að spila fyrir Liverpool?“ John sagði: „Ég myndi gjarnan vilja það herra Houllier.“ Eftir það sendum við einn þjálfara okkar í leikmannasetustofuna til að biðja John um símanúmerið hjá umboðsmanni hans.
John sagði þá: „Ég skal gera gott betur, hér er mitt persónulega símanúmer. Biddu hann um að heyra í mér.“ Tveimur vikum síðar tók Abramovich félagið yfir og það fyrsta sem hann gerði var að gera risasamninga við Terry og Lampard, þannig að við vorum þetta nálægt því að fá hann.“
Terry fór sem kunnugt er ekki fet og reyndist gífurlega sigursæll sem fyrirliði Chelsea, þar sem fimm Englandsmeistaratitlar og fimm enskir bikarmeistaratitlar litu dagsins ljós, ásamt því að hann vann Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildina.
Hann lék eitt tímabil með Aston Villa áður en hann lagði svo skóna á hilluna.