Gerrard tilbúinn að taka við Villa

Steven Gerrard hefur stýrt Rangers frá árinu 2018.
Steven Gerrard hefur stýrt Rangers frá árinu 2018. AFP

Steven Gerrard, knattspyrnustjóri Rangers í Skotlandi, er tilbúinn að taka við enska úrvalsdeildarfélaginu Aston Villa. Það er Sky Sports sem greinir frá þessu.

Gerrard, sem er 41 árs gamall, hefur verið sterklega orðaður við stjórastöðuna hjá félaginu eftir að Dean Smith var rekinn frá félaginu um síðustu helgi.

Í gær bárust fréttir af því að forráðamenn Aston Villa hefðu sett sig í samband við Rangers en Gerrard er samningsbundinn skoska liðinu til sumarsins 2024.

Gerrard þekkir vel til á Englandi en hann lék með Liverpool í sautján ár áður en hann gekk til liðs við Los Angeles Galaxy í bandarísku MLS-deildinni þar sem hann lék í tvö tímabil áður en hann lagði skóna á hilluna.

Gerrard er efstur á óskalista Aston Villa um að taka við liðinu en Roberto Martínez, landsliðsþjálfari Belga, og Ralph Hasenhüttl stjóri Southampton hafa einnig verið orðaðir við stjórastöðuna hjá félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert