Forráðamenn ítalska knattspyrnufélagsins Juventus vilja ólmir losna við Aaron Ramsey, miðjumann liðsins. Það er Goal sem greinir frá þessu.
Ramsey, sem er þrítugur, gekk til liðs við Juventus á frjálsri sölu frá Arsenal sumarið 2019 en hefur engan vegin staðið undir þeim væntingum sem gerðar voru til hans.
Miðjumaðurinn hefur aðeins komið við sögu í fimm leikjum með Juventus á tímabilinu en hann á að baki 70 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað sex mörk.
Ramsey hefur verið orðaður við bæði Newcastle og Everton að undanförnu en félagið gæti rift samningi hans í janúar, ef þeim tekst ekki að selja hann þegar glugginn verður opnaður.
Velski landsliðsmaðurinn þénar í kringum 200.000 pund á viku á Ítalíu og er það stærsta ástæða þess að Juventus vill losna við hann sem fyrst.