Frank Lampard mun ekki taka við stjórnartaumunum hjá Norwich City, botnliði ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla.
Lampard ræddi við forráðamenn Norwich fyrr í vikunni og þótti líklegastur allra til þess að taka við knattspyrnustjórastöðunni af Daniel Farke, sem var rekinn í síðustu viku eftir fyrsta og eina sigur Norwich í deildinni til þessa.
Samkvæmt Henry Winter, íþróttablaðamanni hjá The Times, hafnaði Lampard tilboði Norwich um að taka við.
Leit félagsins að næsta stjóra sínum heldur því áfram. Dean Smith, sem var nýverið rekinn frá Aston Villa, er einn þeirra sem hefur verið orðaður við stöðuna.