Conor Gallagher, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Crystal Palace, hefur verið kallaður inn í enska landsliðshópinn fyrir lokaleik liðsins í undankeppni HM.
Gallagher, sem er á láni frá Chelsea, hefur átt frábært tímabil með Palace til þessa þar sem hann hefur skorað fjögur mörk og lagt upp önnur tvö í tíu deildarleikjum og verið algjör lykilmaður í skemmtilegu liði undir stjórn Patricks Vieira.
Gallagher er 21 árs gamall og á fjölda leikja að baki fyrir yngri landslið Englands en á nú möguleika á að spila sinn fyrsta A-landsleik.
Lokaleikur Englands í undankeppninni fer fram í San Marinó þar sem Englandi nægir að fá eitt stig gegn smáþjóðinni til þess að tryggja sér sæti á HM 2022 í Katar.