Alls hafa fimm leikmenn enska karlalandsliðsins í knattspyrnu dregið sig úr hópnum fyrir lokaleik liðsins gegn San Marínó í undankeppni HM 2022 annað kvöld.
Þetta eru þeir Jordan Henderson, Raheem Sterling, Jack Grealish, Mason Mount og Luke Shaw.
Henderson, Grealish og Shaw hafa snúið aftur til sinna liða vegna meiðsla.
Sterling hefur dregið sig úr hópnum vegna persónulegra ástæðna og Mount hefur sömuleiðis dregið sig úr hópnum þó ekki hafi komið fram hvers vegna.
Aðeins einn leikmaður hefur verið kallaður inn í hópinn í stað fimmmenninganna. Það er Conor Gallagher, miðjumaður Crystal Palace.