Kalvin Phillips, miðjumaður enska landsliðsins og Leeds, hefur skýrt frá því að fyrir úrslitaleik Englands og Ítalíu á EM í sumar hafi hann fengið kveðju frá Andrea Pirlo, einum snjallasta knattspyrnumanni Ítala á síðari árum.
Pirlo, sem var þekktur fyrir að vera einhver albesti varnartengliður heims um árabil og stýrði ítalska landsliðinu og liðum sínum, aðallega AC Milan og Juventus, um árabil, sagði í viðtali við The Athletic í sumar að hann væri hrifinn af Phillips sem leikmanni í sinni gömlu stöðu.
„Englendingar hafa aldrei átt þessa tegund af leikmanni, þó þeir hafi átt stórkostlega miðjumenn með alls kyns hæfileika á hinum ýmsu tímum. En það er strákur í Leeds sem er dálítill „regista“," sagði Pirlo en það er ítalska orðið yfir leikmann í þessari stöðu.
Phillips hefur nú upplýst að fyrir úrslitaleikinn í sumar hafi sér borist myndbandskveðja frá Pirlo, í gegnum samherja sinn Jack Harrison hjá Leeds, sem spilaði með Pirlo hjá New York City fyrir nokkrum árum.
„Þetta var kveðja á myndbandi þar sem hann óskaði mér gæfu og gengis í úrslitaleiknum, og það var stórkostlegt. Ég hef aldrei hitt Pirlo en það vildi ég gjarna. Að fá kveðju frá andstæðingunum, þar sem manni er óskað góðs gengis, er sérstakt, hvað þá þegar það kemur frá svona leikmanni. Það var stórkostleg tilfinning," sagði Phillips við Sky Sports.
Pirlo lék með ítölskum liðum í 20 ár áður en hann lauk ferlinum í New York árið 2017. Hann lék 116 landsleiki fyrir Ítali á árunum 2002 til 2015 og var í liðinu sem varð heimsmeistari árið 2006.