Knattspyrnufélagið Liverpool gæti verið án átta leikmanna þegar liðið tekur á móti Arsenal í stórleik í ensku úrvalsdeildinni næstkomandi laugardag.
Jordan Henderson og Sadio Mané voru sendir snemma heim úr landsliðsverkefnum með þjóðum sínum um helgina vegna smávægilegra meiðsla að sögn Gareth Southgate, þjálfara Englands, og Aliou Cissé, þjálfara Senegals.
Því er óvíst með þátttöku þeirra.
Fyrir voru þeir Harvey Elliott, Roberto Firmino, Naby Keita, James Milner, Joe Gomez og Curtis Jones á meiðslalistanum.
Elliott er að jafna sig á alvarlegum ökklameiðslum og Firmino er illa meiddur aftan á læri. Keita og Milner hafa einnig verið að glíma við meiðsli aftan á læri en þó er styttra í þá en Firmino.
Gomez hefur þá misst af tveimur síðustu leikjum Liverpool vegna kálfameiðsla og Jones varð fyrir því óláni að fá fingur í auga sitt á æfingu í þarsíðustu viku og því er talið líklegast að hann verði orðinn leikfær af leikmönnunum átta.
Hjá Arsenal eru þeir Granit Xhaka, Thomas Partey og Sead Kolasinac allir frá vegna meiðsla.
Xhaka er alvarlega meiddur á hné, Partey glímir við vöðvameiðsli og Kolasinac við ökklameiðsli.
Xhaka og Kolasinac verða ekki með um helgina en möguleiki er á að Partey geti tekið þátt í leiknum.