Botnlið ensku úrvalsdeildarinnar, Norwich City, hefur tilkynnt um ráðningu á Dean Smith sem nýjum knattspyrnustjóra félagsins.
Smith var um þarsíðustu helgi vikið úr starfi hjá Aston Villa eftir fimm deildartöp í röð en hefur nú strax fundið sér nýtt starf.
Daniel Farke var látinn taka pokann sinn hjá Norwich, einnig um síðustu helgi, og buðu forráðamenn félagsins Frank Lampard starfið í síðustu viku, sem hann þó hafnaði.
Þá sneri félagið sér að Smith og gengu viðræður vel undanfarna daga
Gerir hann tveggja og hálfs árs samning og verður Craig Shakespeare, sem var honum til aðstoðar hjá Villa, einnig aðstoðarmaður hans hjá Norwich.
Fyrsti leikur liðsins undir stjórn nýs þjálfarateymis verður á heimavelli gegn Southampton næstkomandi laugardag, en það var einmitt síðasti andstæðingur Villa áður en Smith og Shakespeare voru reknir í kjölfar 0:1-taps.