Ákærður fyrir tvær nauðganir til viðbótar

Benjamin Mendy.
Benjamin Mendy. AFP

Knattspyrnumaðurinn Benjamin Mendy, leikmaður enska félagsins Manchester City, hefur verið ákærður fyrir tvær nauðganir til viðbótar. Í ágúst á þessu ári var hann handtekinn og ákærður fyrir fjórar nauðganir og eitt tilvik kynferðisofbeldis að auki.

Mendy hefur setið í fangelsi síðan í ágúst og nú er hann ákærður fyrir alls sex tilvik af nauðgunum og eitt tilvik af annars konar kynferðisofbeldi.

Málin lúta að fjórum konum sem eru yfir 16 ára aldri, lögaldrinum í Bretlandi, og eru tilvikin sjö sögð hafa átt sér stað á milli október ársins 2020 fram til ágúst 2021.

Mendy á að mæta fyrir rétt í Stockport á morgun þar sem hann getur veitt formlegt svar við nýjustu tveimur ákærunum.

Áætlað er að réttarhöld vegna málanna fari fram þann 24. janúar á næsta ári.

Mendy er í banni hjá Manchester City á meðan beðið er eftir niðurstöðu málanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert