Enn einhverjar vikur í miðjumann Liverpool

Curtis Jones í leik gegn Manchester City í síðasta mánuði.
Curtis Jones í leik gegn Manchester City í síðasta mánuði. AFP

Curtis Jones, miðjumaður enska knattspyrnuliðsins Liverpool hefur verið frá vegna meiðsla í auga sem hann hlaut á æfingu fyrir leik liðsins gegn Atlético Madrid í Meistaradeildinni í upphafi mánaðar.

Félagið hefur nú greint frá því að eftir nánari skoðun verður Jones frá keppni í einhverjar vikur til viðbótar. Læknir liðsins, Jim Moxon, tjáði sig um meiðslin við heimasíðu Liverpool.

„Þetta eru skrýtin og mjög óheppileg meiðsli. Þetta eru þó ekki langvarandi áverkar og sjónin hans mun jafna sig að fullu. Við þurfum hins vegar að leyfa þessu að jafna sig og verðum að passa okkur að flýta okkur ekki. Þetta þarf að gróa áður en hann má byrja að æfa með liðinu aftur, en það er ýmislegt annað sem hann getur gert á meðan hann jafnar sig. Ég get ekki sagt nákvæmlega til um hversu langt er í hann, nema að við erum að tala um vikur. Við tökum engar áhættur með þetta.“

Ljóst er að Jürgen Klopp, framkvæmdastjóri liðsins, er í vandræðum fyrir leik liðsins gegn Arsenal á laugardaginn. Ásamt Jones eru miðjumennirnir James Milner og Naby Keita meiddir aftan í læri. Jordan Henderson þurfti að draga sig úr enska landsliðshópnum vegna meiðsla en þau eru þó talin smávægileg og gæti því verið að hann verði klár fyrir leikinn. Thiago er nýstiginn upp úr meiðslum og er spurning hvað Klopp treystir honum til að spila mikið. Harvey Elliott er svo rétt byrjaður að hlaupa eftir slæm ökklameiðsli og því er langt í hann ennþá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert