Liverpool að fá menn til baka úr meiðslum

Meiðsli Sadio Mané virðast ekki hafa verið alvarleg.
Meiðsli Sadio Mané virðast ekki hafa verið alvarleg. AFP

Góðar fréttir bárust úr herbúðum enska knattspyrnuliðsins Liverpool í dag en þrír leikmenn tóku þátt í æfingu eftir að hafa verið að glíma við meiðsli.

Sadio Mané tók þátt í æfingunni með liðinu og virtist vera heill eftir að hafa fengið högg á rifbein í landsleik með Senegal. Þeir Jordan Henderson og James Milner tóku ekki fullan þátt í æfingunni heldur æfðu sér með sjúkraþjálfara.

Þetta eru aldeilis góðar fréttir fyrir Jürgen Klopp þjálfara Liverpool en meiðslalisti liðsins er mjög langur. Naby Keita, Curtis Jones, Harvey Elliott, Joe Gomez og Roberto Firmino eru allir frá vegna meiðsla og í landsleikjahléinu bættist svo Andy Robertson við, en hann fór meiddur af velli í sigri Skotlands á Danmörku. Ekki er vitað hversu lengi Robertson verður frá.

Næsti leikur Liverpool er gegn Arsenal á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert