Sá leikjahæsti kærður

Gareth Barry í leik með West Bromwich Albion.
Gareth Barry í leik með West Bromwich Albion. AFP

Gareth Barry, leikjahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi, hefur verið kærður af enska knattspyrnusambandinu fyrir brot á reglum sem varða eignarhald knattspyrnuliða.

Brotið á að hafa átt sér stað árið 2013, þegar Barry lék með Everton á láni frá Manchester City. Þá á æskuvinur hans og fyrrum liðsfélagi hjá Aston Villa, Michael Standing, að hafa náð munnlegu samkomulagi við þáverandi eiganda Swindon Town, Lee Power, um kaup á helmingshlut í félaginu. 

Power, Standing og félag í eigu Standing hafa verið undir rannsókn enska knattspynusambandsins í töluverðan tíma en Power hefur fullyrt það að Barry hafi ætlað að fjármagna kaup Standing, án þess þó að það kæmi nokkurs staðar fram á pappír. Power segist meðal annars hafa mætt á fund heima hjá Barry. Samningurinn var þannig að Barry myndi ekki eiga neinn hlut í félaginu en hann ætti þó rétt á helming gróða sem kæmi til vegna aukins virði klúbbsins.

Aldrei var skrifað undir samninginn og í júlí seldi Power félagið til Ástralans Clem Morfuni. Reglur enska knattspyrnusambandsins kveða á um að leikmenn í deildarkeppni Englands megi ekki eiga hlut í neinu félagi og því hefur sambandið ákveðið að kæra Barry eftir upplýsingarnar frá Power.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert