Louis van Gaal, fyrrverandi knattspyrnustjóri enska félagsins Manchester United, segir að félagið hafi verið nálægt því að festa kaup á Thomas Müller, sóknarmanni Bayern München, árið 2015, en að eiginkona Müller hafi komið í veg fyrir félagaskiptin.
United reyndi að kaupa Müller sumarið 2014 og 2015. Í síðara skiptið buðu Rauðu djöflarnir 84 milljónir punda í hann.
„Árið 2015 hefði það verið mögulegt ef konan hans hefði verið aðeins opnari fyrir því að hann myndi fara til félags í öðru landi.
Það var að minnsta kosti ástæðan sem Thomas gaf aðstoðarmanni mínum Marcel Bout, sem hafði séð um allar viðræður við hann, um af hverju skiptunum hafi verið hafnað,“ sagði van Gaal í samtali þýska miðilinn Bild.
Hann greindi þar einnig frá því að Bayern hefði alfarið hafnað viðræðum við United sumarið á undan.
„Árið 2014 voru stjórnarmenn Bayern harðákveðnir í að hafna öllum tilboðum United,“ sagði van Gaal.