Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri enska félagsins Liverpool, gaf upplýsingar um átta leikmenn sem hafa verið að glíma við meiðsli á blaðamannafundi í dag.
Sadio Mané, sem meiddist í landsliðsverkefni með Senegal er heill og verður klár í leikinn gegn Arsenal á laugardaginn. Hann hefur æft með liðinu síðustu daga og virðist vera heill heilsu.
Andy Robertson og Jordan Henderson eru í kapphlaupi við tímann en þeir meiddust einnig báðir í landsliðsverkefnum. Klopp segir að meiðsli Robertson séu alls ekki jafn alvarleg og þau litu út fyrir að vera og það gæti vel verið að hann verði klár á laugardaginn. Staðan sé aðeins verri hjá Henderson en hann eigi samt möguleika á að ná leiknum.
Þeir Joe Gomez, James Milner, Naby Keita og Roberto Firmino munu allir missa af leiknum en Klopp segir þá samt sem áður vera á batavegi. Gomez verður frá í einhverjar vikur til viðbótar, Keita og Milner byrja að æfa í næstu viku og stutt er í Firmino, þó hann nái ekki leik helgarinnar.
Klopp minntist einnig á Curtis Jones, sem er meiddur á auga. Hann segir að læknateymi Liverpool vilji ekki hleypa honum alveg strax af stað og því verði hann frá eitthvað lengur.