Steven Gerrard, nýráðinn knattspyrnustjóri enska liðsins Aston Villa segir að langtímamarkmið félagsins sé að komast aftur í Evrópukeppni.
Gerrard tók við liðinu á dögunum af Dean Smith sem var rekinn eftir slakt gengi undanfarið.
„Árangur í fótbolta snýst fyrst og fremst um að vinna leiki. Langtímamarkmiðið er að komast aftur í Evrópukeppni en við ætlum að byrja á skammtímamarkmiðunum. Við eigum leik við Brighton um helgina og ætlum okkur að vinna hann. Við þurfum að byrja á því að vinna fótboltaleiki.
Mikið hefur verið rætt og ritað um að Gerrard verði arftaki Jürgen Klopp hjá Liverpool þegar sá þýski ákveður að láta þetta gott heita. Gerrard spilaði auðvitað með Liverpool nánast allan sinn feril og fara fyrirliði liðsins til margra ára. Eftir ferilinn gerði hann svo góða hluti sem stjóri skoska liðsins Rangers.
„Þessi blaðamannafundur á ekki að vera um neitt annað lið en Aston Villa, við verðum að sýna stuðningsmönnunum þá virðingu. Það vita allir í heiminum hvaða stað Liverpool á í hjarta mínu en núna er öll mín einbeiting á Aston Villa. Ég hef sagt það áður og lofa stuðningsmönnum því.“
„Ég hef aldrei sagt og mun aldrei segja að þetta starf sé einhver stökkpallur fyrir mig til að komast til Liverpool. Ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir traustið sem mér er sýnt með þessu starfi. Liverpool eru með heimsklassa stjóra núna og ef hann fengi ævilangan samning myndi ég fagna því.“
Aston Villa lék síðast í Evrópukeppni árið 2010 en félagið varð Evrópumeistari árið 1982 þegar það sigraði Bayern München í úrslitaleik.