Klopp: „Ég hata landsleikjahlé“

Jürgen Klopp og Jordan Henderson á góðri stundu.
Jürgen Klopp og Jordan Henderson á góðri stundu. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er ekki sérlega hrifinn af landsleikjahléum og lét þá skoðun sína í ljós á blaðamannafundi í dag.

Í landsleikjahléum eiga leikmenn Liverpool það til að meiðast og engin undantekning var á því að þessu sinni þar sem Jordan Henderson, Andrew Robertson og Divock Origi sneru allir meiddir til baka úr verkefnum með landsliðum sínum.

„Ég hata landsleikjahlé. Það hjálpaði ekki neitt. Ég hefði gjarna viljað spila helgina eftir tapið gegn West Ham,“ sagði Klopp.

Sadio Mané var einnig sendur fyrr heim úr verkefni með Senegal en það var af varúðarráðstöfunum og er í lagi með hann. Liverpool mætir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

„Henderson og Robertson hafa ekki æft með liðinu ennþá, þeir hafa verið í endurhæfingu og endurheimt. Við munum taka mjög síðbúna ákvörðun um hvort þeir spili á morgun.

Sadio er í lagi. Fabinho var í endurheimt og planið er að hann æfi eðlilega í dag,“ sagði Klopp einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert