Chelsea ekki í neinum vandræðum með Leicester

Rüdiger fagnar marki sínu í dag.
Rüdiger fagnar marki sínu í dag. AFP

Chelsea vann þægilegan 3:0 sigur gegn Leicester á King Power vellinum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Ben Chilwell slapp einn gegn Kasper Schmeichel snemma leiks en enski bakvörðurinn fór illa að ráði sínu og setti boltann í þverslánna.

Á 14. mínútu tók Chilwell svo hornspyrnu sem endaði á kollinum á Antonio Rüdiger. Þjóðverjinn gerði mjög vel að koma boltanum í netið en hann þurfti að skalla boltann aftur fyrir sig. Rúmlega tíu mínútum síðar skoraði svo Ademola Lookman fyrir Leicester eftir góða fyrirgjöf frá Marc Albrighton en markið var réttilega dæmt af vegna rangstæðu.

Eftir tæplega hálftíma leik fékk svo N'Golo Kanté boltann á miðjum vellinum frá Reece James. Kanté hljóp bara af stað með boltann, fékk að fara óáreittur alla leið að vítateig Leicester þar sem hann lét vaða með vinstri fæti og boltinn söng í netinu. Glæsilegt mark hjá franska miðjumanninum.

Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleiknum og fóru gestirnir því með tveggja marka forystu inn til búningsherbergja.

Eftir rúmlega 70 mínútur var það svo Bandaríkjamaðurinn Christian Pulisic sem skoraði þriðja mark gestanna af stuttu færi eftir sendingu Hakim Ziyech. Þetta reyndist síðasta mark leiksins og Chelsea styrkti þar með stöðu sína á toppi deildarinnar. Liðið er nú með 29 stig, sex stigum meira en Manchester City og West Ham, sem eiga þó leik til góða. Leicester er í vandræðum, en þeir sitja í 12. sætinu.

Leikur Leicester og Chelsea var sýndur beint á Síminn Sport.

Callum Hudson-Odoi fagnar markaskoraranum N'Golo Kanté innilega
Callum Hudson-Odoi fagnar markaskoraranum N'Golo Kanté innilega AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert