Watford vann fyllilega verðskuldaðan 4:1 sigur á Manchester United á Vicarage Road í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Watford voru betri aðilinn allan leikinn og vandræði United halda áfram.
Fjörið hófst strax á sjöttu mínútu þegar Bruno Fernandes ætlaði að hreinsa boltanum fram völlinn en það fór ekki betur en svo að hann lyfti honum inn í eigin teig. Josh King var á undan Scott McTominay í boltann og sá síðarnefndi hálfpartinn dettur á King og brýtur á honum. Vítaspyrna dæmd sem Emmanuel Dennis tók. Spyrnan var slök og David De Gea sá við honum. Hann varði boltann þó beint út í teiginn þar sem Kiko Femenia mætti og kláraði vel. VAR skoðaði þó atvikið og komst að þeirri niðurstöðu að Femenia hefði lagt of snemma af stað inn í teiginn og því var spyrnan endurtekin. Þá steig Ismaila Sarr á punktinn en De Gea gerði sér lítið fyrir og varði líka frá honum.
Eftir tæpan hálftíma kom svo fyrsta mark leiksins. Emmanuel Dennis fékk boltann þá á lofti vinstra megin í teig United manna. Hann tók boltann niður, setti hann á vinstri fótinn og negldi honum fyrir markið þar sem Josh King var réttur maður á réttum stað og stýrði boltanum í netið. Fyllilega verðskulduð forysta heimamanna.
Undir lok fyrri hálfleiks tvöfaldaði svo Ismaila Sarr forystu heimamanna. Kiko Femenia komst þá upp að endamörkum, skar boltann út á Sarr sem tók eina snertingu áður en hann hamraði boltanum frábærlega í fjærhornið, þar sem David De Gea átti ekki séns á að verja. Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleiknum og heimamenn í Watford fóru með fyllilega verðskuldaða 2:0 forystu inn í hálfleikinn.
Ole Gunnar Solskjær gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik þegar hann setti Donny van de Beek og Anthony Martial inn fyrir Scott McTominay og Marcus Rashford. Þeir voru búnir að vera inná í einungis fimm mínútur þegar sá fyrrnefndi minnkaði muninn fyrir United. Jadon Sancho gaf boltann þá fyrir markið frá hægri á kollinn á Cristiano Ronaldo á fjærstönginni. Hann skallaði boltann til baka á Donny van de Beek sem skoraði þægilega í opið markið.
Á 62. mínútu fékk fyrirliði United, Harry Maguire gult spjald fyrir að rífa Ismaila Sarr niður rétt fyrir utan vítateig eftir að hafa misst hann framhjá sér. Einungis sjö mínútum síðar er hann svo að dóla með boltann sem aftasti maður, þegar hann missir hann of langt frá sér til Tom Cleverley og neglir hann svo niður. Einstaklega klaufalegt hjá þessum reynslumikla leikmanni sem fékk réttilega sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Í uppbótartíma kláruðu svo heimamenn leikinn með tveimur mörkum til viðbótar. Emmanuel Dennis setti varamanninn Joao Pedro í gegn og þrátt fyrir að vera í mjög þröngu færi nær hann að troða boltanum á milli fóta De Gea og í netið. Ekki nægilega gott hjá spænska markmanninum þarna. Um mínútu síðar var svo eins og það væri verið að endursýna þriðja markið. Nú var það Dennis sjálfur sem komst á sama stað og Pedro áðan og aftur kom mark úr þröngu færi fram hjá David De Gea.
Með sigrinum fer Watford upp í 16. sæti deildarinnar með 13 stig. United er í því sjöunda með 17 stig.