Liverpool vann afar sannfærandi 4:0-sigur á Arsenal á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Liverpool var töluvert betra liðið allan leikinn og hefðu mörkin getað orðið fleiri, en Aaron Ramsdale í marki Arsenal varði nokkrum sinnum gríðarlega vel.
Ramsdale hélt Arsenal í leiknum framan af, en hann var loks sigraður þegar Sadio Mané skoraði með skalla á 39. mínútu og var staðan í hálfleik 1:0.
Diogo Jota tvöfaldaði forskot Liverpool á 52. mínútu er hann lék á Ben White og síðan Ramsdale og skoraði fallegt mark. Mo Salah bætti við þriðja markinu á 73. mínútu og varamaðurinn Takumi Minamino gulltryggði 4:0-sigur með marki á 77. mínútu, mínútu eftir að hann kom inn á sem varamaður.
Liverpool er í öðru sæti með 25 stig og Arsenal í fimmta sæti með 20 stig.