Endurkomusigur í fyrsta heimaleik Conte

Sergio Reguilón fagnar sigurmarki sínu.
Sergio Reguilón fagnar sigurmarki sínu. AFP

Tottenham Hotspur vann góðan 2:1 sigur gegn Leeds United þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag. Leeds leiddi með einu marki í hálfleik en góður síðari hálfleikur skóp sterkan endurkomusigur hjá Tottenham.

Gestirnir í Leeds réðu lögum og lofum í fyrri hálfleiknum og héldu boltanum stærstan hluta hans, án þess þó að skapa sér hættuleg færi.

Stuart Dallas og Adam Forshaw komust þó nálægt því að koma Leeds yfir með frábærum langskotum en þau fóru bæði rétt framhjá markinu.

Undir lok fyrri hálfleiks tók Leeds svo forystuna úr fyrsta opna færi leiksins. Jack Harrison komst þá laglega framhjá Emerson Royal, þrumaði lágum bolta þvert fyrir markið þar sem Daniel James kin á fleygiferð og stýrði boltanum í netið af stuttu færi.

Staðan því 0:1, Leeds í vil, þegar flautað var til hálfleiks.

Síðari hálfleikurinn fór afar fjörlega af stað þar sem Harry Kane slapp í gegn strax í upphafi hans en Illan Meslier í marki Leeds varð skot hans af stuttu færi í stöngina.

Skömmu síðar komst James nálægt því að skora sitt annað mark en Hugo Lloris í marki Tottenham varði vel aftur fyrir.

Stuttu eftir það ætlaði Son Heung-Min annað hvort að skjóta eða gefa fyrir en boltinn fór af varnarmanni og þaðan í þverslánna.

Eftir tæplega klukkutíma leik jöfnuðu heimamenn í Tottenham svo metin. Sergio Reguilón átti þá góða fyrirgjöf frá vinstri á Lucas Moura sem tók við boltanum nálægt markinu, sneri við og lagði hann út á Höjbjerg sem lagði boltann snyrtilega í fjærhornið með vinstri fæti, 1:1.

Ellefu mínútum síðar, á 69. mínútu, tók Tottenham forystuna. Eric Dier skaut þá beint úr aukaspyrnu af stuttu færi, hún fór af varnarveggnum og í stöngina og Sergio Reguilón var mjög fljótur að átta sig, náði frákastinu og skoraði af öryggi af stuttu færi. Þetta var hans fyrsta mark fyrir Tottenham.

Heimamenn í Tottenham náðu svo að sigla sigrinum í höfn og Antonio Conte vann þar með sinn fyrsta heimaleik í ensku úrvalsdeildinni sem knattspyrnustjóri félagsins í fyrstu tilraun.

Tottenham fer með sigrinum úr 11. sæti upp í 7. sæti og er með 19 stig eftir 12 leiki.

Leeds er áfram í erfiðri stöðu í 17. sæti með 11 stig, tveimur stigum fyrir ofan Burnley sem er í fallsæti.

Pierre-Emile Höjbjerg jafnar metin.
Pierre-Emile Höjbjerg jafnar metin. AFP
Daniel James kom Leeds yfir.
Daniel James kom Leeds yfir. AFP
Pascal Struijk slær létt til Lucas Moura.
Pascal Struijk slær létt til Lucas Moura. AFP
Tottenham 2:1 Leeds opna loka
90. mín. Að minnsta kosti fjórum mínútum verður bætt við í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert