Staðarmiðillinn Manchester Evening News telur að Darren Fletcher muni stýra Manchester United til bráðabirgða fari svo að Ole Gunnari Solskjær verði sagt upp störfum sem knattspyrnustjóri.
Manchester Evening News segist vera með heimildarmenn úr ýmsum áttum sem fullyrða að ákvörðun hafi verið tekin um að láta Solskjær fara. Enginn þeirra tjáði sig undir nafni. Nú sé samkvæmt heimildum unnið að því að setja saman starfslokasamning sem samkvæmt blaðinu muni kosta félagið rúman milljarð íslenskra króna.
Verði af uppsögninni og hún komist til framkvæmda fyrir leik United í Meistaradeildinni á þriðjudaginn þá muni Darren Fletcher stýra liðinu gegn Villareal á þriðjudagskvöldið. Fletcher er nú þegar starfsmaður hjá félaginu. Honum til aðstoðar verði Michael Carrick sem einnig starfar hjá félaginu.
Fletcher er 37 ára gamall Skoti sem var hjá United sem leikmaður frá 2003-2015. Carrick er fertugur Englendingur og lék með United frá 2006 til 2018.
Manchester Evening News er alla jafna áreiðanlegur fjölmiðill þegar kemur að málefnum Manchester United og Manchester City.