Léleg stjórnun og skipulag hjá félaginu

Gary Neville vinnur nú sem sjónvarpsmaður á Sky Sports og …
Gary Neville vinnur nú sem sjónvarpsmaður á Sky Sports og sparar ekki gagnrýnina á sitt gamla félag. AFP

Gary Neville, sem lék allan sinn feril með enska knattspyrnuliðinu Manchester United, segir að í kjölfarið á brottrekstri Ole Gunnars Solskjærs í gær sé ljóst að skipulag og stjórnun hjá félaginu sé í molum.

Neville, sem spilaði 400 úrvalsdeildarleiki fyrir United á árunum 1992 til 2011, starfar nú sem knattspyrnusérfræðingur hjá Sky Sports.

„Ole Gunnar Solskjær getur ekki kvartað. Knattspyrnustjórar fá tvö til þrjú ár með lið í fremstu röð og þeir verða að skila árangri. Úrslit og frammistaða hjá liðinu undanfarna mánuði hafa verið skelfileg," sagði Neville á Sky Sports.

„Andinn í hópnum virðist vera gjörsamlega á núllpunkti núna. Leikmennirnir virðast rúnir öllu sjálfstrausti og þegar þeir spila fótbolta er eins og þeir séu með allar heimsins áhyggjur á sínum herðum. Manchester United ætlar greinilega að reyna að bjarga því sem bjargað verður til loka tímabilsins. Þeir eru með engan valkost í stöðunni. Það bíður enginn eftir því að taka við liðinu.

Þetta er bara basl og einhver viðbrögð. Þetta er í þriðja sinn sem þeir hafa gert langtímasamning eða framlengingu við knattspyrnustjóra og síðan rekið hann eftir nokkra mánuði. Skipulagið hjá félaginu hefur því verið afar lélegt," sagði Gary Neville.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert