Þjálfarakapallinn að ganga upp?

Zinedine Zidane er orðaður við stjórastöðuna hjá París SG.
Zinedine Zidane er orðaður við stjórastöðuna hjá París SG. AFP

Forráðamenn franska knattspyrnufélagsins París SG hafa sett sig í samband við Zinedine Zidane um að taka við liðinu. Það er spænski miðillinn AS sem greinir frá þessu.

Zidane, sem er 49 ára gamall, hefur verið án starfs síðan hann lét af störfum sem þjálfari Real Madrid eftir síðasta tímabil en hann hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá Manchester United undanfarna daga.

Mauricio Pochettino, núverandi stjóri París SG, hefur verið sterklega orðaður við stjórastöðuna hjá Manchester United síðan Ole Gunnar Solskjær var rekinn í gær.

Í kvöld bárust fréttir af því að forráðamenn United hefðu sett sig í samband við Pochettino en hann er sagður spenntur fyrir því að snúa aftur til Englands.

Zidane gæti því tekið við París SG af Pochettino, fari svo að Pochettino taki við United, en Zidane er sagður hafa lítinn áhuga á því að taka við Manchester United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert