Vill komast frá París til Manchester

Mauricio Pochettino á bekknum hjá París SG.
Mauricio Pochettino á bekknum hjá París SG. AFP

Mauricio Pochettino, fyrrverandi knattspyrnustjóri Tottenham, er tilbúinn til að yfirgefa París SG til þess að taka við liði Manchester United.

Þetta segja bæði Daily Mail og Sky Sports í dag en í grein í Daily Mail er sagt að Pochettino sé ekki sáttur við lífið í París þar sem hann býr einn á hóteli á meðan fjölskyldan býr í London. Þá er hann sagður vera ósáttur við samskiptin við stórstjörnur liðsins, Lionel Messi, Neymar og Kylian Mbappé. Hann sé því tilbúinn til að yfirgefa franska stórliðið strax.

Pochettino stýrði Tottenham frá 2014 til 2019 en tók síðan við París SG í janúar á þessu ári.

Zinedine Zidane, sem hefur verið orðaður við starfið hjá United, er sagður hafa mun meiri áhuga á að taka við París SG eða franska landsliðinu. Brendan Rodgers hjá Leicester er ítrekað orðaður við stöðuna en samkvæmt Daily Express hefur Rodgers rætt við sinn leikmannahóp hjá Leicester og ítrekað að hann sé ekki á förum.

Þá er Laurent Blanc, fyrrverandi miðvörður United og franska landsliðsins, nefndur til sögunnar sem mögulegur bráðabirgðastjóri liðsins til loka þessa tímabils. Michael Carrick stýrir liðinu sem stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert