Jákvæðar fréttir fyrir Liverpool

Mohamed Salah er nálægt því að skrifa undir nýjan samning …
Mohamed Salah er nálægt því að skrifa undir nýjan samning í Bítlaborginni. AFP

Mohamed Salah, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, mun að öllum líkindum skrifa undir nýjan langtímasamning við félagið á næstu dögum. Það er TEAMtalk sem greinir frá þessu.

Framtíð egypska sóknarmannsins hefur verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur en núverandi samningur hans við Liverpool rennur út sumarið 2023.

Salah, sem er 29 ára gamall, er sagður vilja fá umtalsverða launahækkun hjá félaginu en hann þénar í dag 200.000 pund á viku.

Egyptinn gekk til liðs við Liverpool frá Roma sumarið 2017 og hefur verið einn besti leikmaður liðsins síðan.

Hann hefur skorað ellefu mörk í tólf leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og er markahæsti leikmaður deildarinnar en alls á hann að baki 219 fyrir Liverpool í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 141 mark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert